Fjallganga og fleira

Við ákváðum að skella okkur í fjallgöngu á laugardegi til lukku. Veðrið kjörið til þess og andinn uppfullur af óbilandi sjálfstrausti og sjálfsáliti. Lagt var af stað með nesti, drykk, plástra og næstum nýja skó. Þeir sem fóru í þessa ferð vorum við hjónin ásamt okkar duglegu þremur börnum, einn vinur (Viktor Jóhannes Finnmörk) yngri sonar míns og faðir minn sem er að nálgast 70 ára aldurinn. Var öllum skellt upp á sturtuvagn og keyrt upp að girðingu og er það smá spotti. Jæja svo byrjaði labbið og allir byrjuðu vel. En svo vildi svo til að hópurinn fór upp á ekki alveg réttum stað og var þetta því mjög erfið ferð. Auðvitað var oft stoppað enda bratt og allt upp í móti. Svo var tekið smá nestisstopp og drykkjarstopp og skoðunarstopp og slatti af Jörfafrúarstoppum. Þau síðasttöldu voru lífsnauðsynleg fyrir Jörfafrúna. Enda burðast konan sú með slatta af yfirþyngd og er slæm í liðamótum. Endaði fjallganga frúarinnar með að hún var orðin síðust upp á tindinn. Meira segja aldraður faðir hennar, sem var með bakpoka fullan af svalandi drykk, komst á undan henni og já líka 6 ára dóttirin.  Eiginmaðurinn (var með þungan bakpoka fullan af nesti) er þindarlaus held ég bara og skokkaði hann þetta upp án þess að blása úr nös. Þegar um 20 - 40 metrar voru eftir gafst ég alveg upp og sneri við niður. Gat hreinlega ekki meir. Fruntalega þyrst (maðurinn með vatnið löngu kominn upp) og svoleiðis að drepast úr liðverkjum, blöðrum á fótum,  með fulla þvagblöðru, hælsæri, svita, sykurlöngun, bjórlöngun og ég veit bara ekki hverju. Nema hvað ég var nánast alveg jafn lengi niður og upp. Fólkið mitt sem naut þess að hafa komist á toppinn náði mér svo fyrir rest á leið niður. Auðvitað sagðist ég bara hafa setið hér og beðið eftir þeim.  Halló!! Smá stolt þó allt hafi verið brotið niður annað. Jæja við komumst niður og auðvitað ég síðust. Þeir sem fóru fyrstir upp urðu líka fyrstir niður. Skamm skamm  og grumli grumli á aukakílóin. Svo til að gera allt enn meira gremjulegra eða kannski grenjulegra. Þá lögðu ein ágæt hjón frá Hvammstanga upp á fjallið löngu á eftir okkur og þau náðu á toppinn á undan mér. Þau heiðurshjón voru líka allra fyrst niður. Sennilega komin af fjallageitakyni. En þau eiga alla mína fjallamennskuhrifningu og tek ég ofan fyrir þeim. Því þetta virtist vera svo létt hjá þeim. Alla vega þá komust allir niður og þegar heim var komið þá var heilinn í mér hreinlega dofinn. Ég hefði sko alls ekki getið tekið þátt í málefnalegum umræðum í það skiptið. Nema hvað ég hafði ákveðið að grilla lambalæri með öllu tilheyrandi. Ægir minn dreif sig í fjósið og ég dreif mig í sturtu enda vel svitnuð svo ég grípi til orðs barnanna úr leikskólanum. Nema hvað heilinn hresstist bara ekkert við þetta hressandi steypibað og var ég því ekki búin að grilla eitt eða neitt þegar Ægir kom inn úr fjósinu. Kallgreyjið var frekar fúll en ég gaf honum bara bjór til að þagga niður í honum. Jæja kvöldmaturinn var því snæddur um hálf ellefu og stuttu síðar komu þau Kristín og Kristófer í heimsókn þó aðalega til að sækja son sinn sem hafði búið hjá mér undanfarna daga. Þau átu hjá okkur og svo var slúðrað, horft á DVD, bjór drukkinn og snakk etið. Jú auðvitað var svo spilaður Kani. Hvað annað.  Já svo daginn eftir voru fæturnir mínir gjörsamlega búnir og mótmæltu við hvert skref, sérstaklega við að fara upp og niður stigann. Enda minnti það hnén á klifrið frá deginum áður. Daginn þann vöknuðu allir seint nema auðvitað Ægir sem fór að mjólka. Enda maðurinn sá haldin óbilandi sjálfsaga sem jaðrar við masokistma. Svo var öllum dýpt í bað og í hrein föt og skeiðað af stað og í fermingarveislu Jóhannesar Geirs Grétu og Gunnarssonar Fitjum.  Það var alvöru fermingarveisla og allt fór fram með miklum sóma, þó ekki sómasamlokum. Nema hvað ég var aðeins að skoða fermingargjafirnar og sá ég að drengurinn var að fá 32" LCD flatskjá. Hemmmm pínumunur frá því er ég fermist. En þá fékk ég saumavél, svefnpoka og eitthvað þvílíkt fremur ómerkilegt og fruntalega ófrumlegt allt saman. En jæja vonandi mun Jóhannes Geir njóta allra gjafanna. Svo á morgun er verið að fara að marka folöldin og það er spáð rigningu og roki. Veiiii pollaföt, hornös og nóg af bjór.

Sumarbros

 Þegar ég var yngri, vó ég nokkrum kílóum minna. Ég þurfti aldrei að halda
 maganum inni þegar ég fór í þröngan kjól.
 
 En nú, þegar ég er orðin eldri, hefur líkami minn brotist til frelsis. Og
 um þann hluta hans sem einu sinni var mitti, eru þægileg teygjanleg efni.
 
 Ítölsku skórnir þurfa að vera tveim númerum stærri en áður, ef ég kem þá
 fótunum yfirleitt í þá, og skrefbótin á sokkabuxunum sígur allt of oft
 niður undir hné.
 
 En ég hef einnig lært að það skiptir engu máli hvað gerist, eða hversu
 dimmt virðist yfir öllu í dag. Lífið heldur áfram og á morgun kemur betri
 dagur.
 
 Ég hef lært, að það segir mikið til um manneskjuna hvernig hún bregst við
 þessum þremur hlutum
 1. Rigningardegi
 2. Týndum farangri
 3. Flæktu jólatrésskrauti
 
 Ég hef lært, að óháð því hvernig samband okkar er við foreldra okkar, komum
 við til með að sakna þeirra, þegar þau eru horfin á braut.
 
 Ég hef lært, að það að verða sér úti um peninga og hluti, er ekki það sama
 og að skapa sér líf.
 
 Ég hef lært, að af og til býður lífið okkur upp á annað tækifæri.
 
 Ég hef lært, að maður getur ekki farið í gegnum lífið með hornabolta-hanska
 á báðum höndum. Öðru hvoru verðu maður líka að gefa boltann til baka.
 
 Ég hef lært, að þegar ég ákveð eitthvað beint út frá hjartanu, þá hef ég
 yfirleitt hitt á hina einu réttu ákvörðun.
 
 Ég hef lært, að þó að ég sé sár, þurfi ég ekki að særa aðra.
 
 Ég hef lært, að á hverjum degi eigi maður að rétta öðrum höndina. Allir
 þurfa hlýjar hugsanir og vinalegt klapp á axlirnar.
 
 Ég hef lært, að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.
 
 Ég hef lært, að það sem þú segir og gerir vill gleymast, en fólk gleymir
 ekki hvernig þú lætur því líða.


Breyttir tímar

Ég er svo gömul að hafa upplifað öðru vísi tíma en unglingar í dag eru að upplifa. Þannig er að ég á börn og það kemur fyrir að þau vilja vita hvernig var þegar mamma þeirra var svipuðum aldri og þau eru núna. Þeim finnst ég hljóti að hafa verið uppi á fornöld. En er það svo? Ja ég man til dæmis eftir þegar ríkisjónvarpið var eina stöðin sem var í boði og það var ekkert sjónvarp í júlí. Hvað þá morgunsjónvarp eða hægt að horfa frameftir. Alltaf hugvekja á sunnudögum og ekkert sjónvarp fyrr enn klukkan 18. Já svo var ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Man enn hvaða þáttur var svo alltaf sýndur á fyrstu fimmtudagskvöldunum, Mattlock lögmaður í bláu jakkafötunum. Snjall kall sá. Fleira var öðruvísi í minni æsku. Bara ein útvarpsrás lengi vel og voru þættir eins og Lög unga fólksins, Óskalög sjómanna og Óskalög sjúklinga voða vinsælir þættir. Ekkert næturútvarp. Hvílík bylting þegar svo Rás 2 byrjaði. Ég bjó í sveit og þar var sveitasíminn og enginn GSM sími til. Hvað þá video eða tölva. Bara eitt sjónvarp og tvö til þrjú útvarpstæki. Sveitasíminn var magnaður. Allar kellingar hleruðu og héldu ekki vatni yfir slúðri dagsins. Ég man að þetta var aðaláhugamál kvenna enda Leiðarljós ekki komið á dagskrá enda ekkert sjónvarp á daginn í boði. Nema hvað þegar ég var u.þ.b. 10 ára ákvað ég að prófa þetta súperskemmtilega áhugamál. Var ein hjá símanum og notaði tækifærið. Tók tólið ofurvarlega upp og hlustaði. Heyrði að það voru tveir karlmenn að tala og um svona líka eitthvað leiðinlegt, pólitík og fundagerðir. Úfff hvað það var leiðinlegt. Hlustaði nú samt og hélt í von um slúður en ekkert gerðist. Þekkti þó reyndar annan manninn sem talaði og var það pabbi minn sem var einhver staðar á fundi. Ég beið róleg eftir að samtali mannanna lyki og þegar það gerðist þá greip ég tækifærið og spurði pabba hvenær hann kæmi heim. Bara rétt sí svona eins og hann vissi bara að ég væri hinum megin á línunni.  Honum brá aðeins en snéri sig fagmannlega útúr þessu og sagðist koma bráðum heim. Eftir þetta lét ég sveitasímann alveg vera.  Fleira var öðruvísi þá en nú. Til dæmis var aðalbíllinn Land Rover. Ekki töff í dag held ég. Svo af því að það var ekkert internet, video eða hópur sjónvarpsrása þá voru spilakvöld og bingó vinsæl kvöldskemmtun. Já já man eftir röð spilakvölda og svo var hörð keppni. Ekki væri mikil þátttaka ef svoleiðis væri í dag. Ekki svo að skilja að ég vilji gamla tímann aftur því ég er fullkomlega sátt við að vera uppi í dag. En þó er gaman að horfa um öxl og sjá hvernig þjóðfélagið hefur breyst.

« Fyrri síða

Um bloggið

Stellan

Höfundur

Stella Jórunn A Levy
Stella Jórunn A Levy
Stellan er forvitin og hefur áhuga á flestu.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._005_580441
  • ..._folder_011
  • ..._folder_015
  • ..._folder_009
  • Jenný Dögg táknaði Eldinn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 1228

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband