Er á lífi!!!!

Bara láta vita að ég er á lífi en hef ekki haft tíma til að blogga. Þegar tími gefst verður skrúfað frá bloggkrananum og látið streyma svo dögum skiptir.

over and out.


Hreingerning!!!!

Ég ætlaði að þrífa í dag en þetta er svo stórt heimili. Sko, undir rúminu býr draugurinn svo þar vil ég ekki þrífa. Svo eru það náttúrulega hornin en þau þarf ekki að þrífa því þau eru nú eiginlega sýnishorn. Inni á baði búa silfurskotturnar og ég vil nú ekki styggja þær þessar elskur, eldhúsið er upptekið af hveitibjöllunum svo þar þríf ég bara seinna. Nú rykmaurarnir búa í rúminu um stundarsakir (eru að leita að íbúð) svo ekki er ég svo illkvittin að eyðileggja eina athvarfið þeirra. Allavega ég brynnti músunum hjá syni mínum og vökvaði blómin. En aukaherbergið í húsinu mínu er orðið svo skítugt að ég vissi ekki í hvoran fótinn ég ætti að stíga svo ég bara settist niður og pústaði aðeins eftir þessa stórhreingerningu.


Vatnaskógarferðin

Undanfarið hefur verið margt að gerast hjá Jörfafrúnni. Aðalmálið er sennilega að sonur minn hann Agnar Ási er farinn í sumarbúðir í Vatnaskóg. Þetta er stórt stökk fyrir hann því þetta er í fyrsta sinn sem hann er í heila viku án fjölskyldunnar. Hmm nokkuð öruggt er hann að skemmtir sér konunglega en móðurhjartað platar sjálfan sig með því að sennilega sé drengurinn að gráta úr sér augun. Hægt er svo að sjá myndir af dvölinni inn á www.kfum.is   En áður en Agnar fór þurfti auðvitað að pakka niður og svona. Fengum við sent forláta bréf frá staðarhöldurum í Vatnaskógi hvað þyrfti að hafa með og hvað væri ónauðsynlegt og jafnvel með öllu óleyfilegt. Ég renndi yfir þetta bréf á sínum tíma og setti það svo á góðan stað. En hvernig fer alltaf fyrir þeim hlutum sem settir eru á góðu staðina. Jú þeir týnast eða maður man alls ekki hvar þessi góði staður er. Þannig fór það líka með þetta Vatnaskógarbréf. Daginn áður en halda skildi í búðirnar fannst ekki bréfið. Svo þá reyndi á minni Jörfafrúarinnar.  Og þeir sem til þekkja vita hversu slæmt það getur verið. Frúin man til dæmis oft ekki hvar hún leggur bílnum sínum og þannig fleira í þeim dúr. Jæja hvað um það. Ég fór sem sagt að hugsa og það hreinlega rauk úr minnisstöðvum heilans. Mundi óljóst eftir hinu og þessu og skellti ýmsu ofaní nýkeypta ferðatöskuna. Svo vildi þannig til að flest föt sem Agnar Ási á eru orðin svona drusluföt. Er nefnilega að láta hann draslast í fötunum en svo fær hann auðvitað nýjan fatnað fyrir skólann í haust. En þetta þýddi kaupstaðarferðir hingað og þangað. Ég bý sem sagt mitt á milli Blönduóss og Hvammstanga. Svipað langt að keyra svo sem. En eins og bensín og olía er orðin dýr í dag þá var þetta rándýr kaupstaðarferð og bara til þess eins að uppgötva að það fengjust hvorki skór né föt á drenginn. Jörfafrúin var heldur brúnaþung þann daginn. Dagurinn ónýtur til annarra verka svo sem ráp á netinu. Jæja lét þetta ekki stöðva mig. Ákvað að stoppa bara í Borganesi daginn eftir og versla á strákinn þar. Rann nú upp brotfaradagur og allt tilbúið. Við brunuðum að stað með stoppi á Norðurbraut að sækja Ásbjörn vin Agnars en þeir ætluðu saman í búðirnar. Keyrt var í Borgarnes án áfalla. Þegar þangað kom var ekkert til á Agnar í Samkaup. Þetta fannst mér bara svo sem allt í lagi og rauk í Hagkaup. En þar komst ég að því að búðin sú opnaði ekki fyrr en c.a. einum og hálfum tíma síðar. Grumli grumli og skamm á þá annars ágætu verslun. Þetta varð til þess að ég fór í sportvöruverslunina og keypti tvennar rándýrar íþróttabuxur á strákinn. Spurði afgreiðslukonuna hversu lengi ég væri að keyra í Vatnaskóg. Hún fullyrti án minnsta vafa að það væri alla vega 40 – 45 mínútur. Eitthvað fannst mér það mikið og varð pínu stressuð. Hafði nefnilega fundist það ekki vera nema um 30 mínútur frá Borganesi. Dreif því mannskapinn útí bíl og brunuðum við sem leið lá að Vatnaskógi. Ferðin sú tók engar 40 mínútur og ók ég löglega langleiðina. Og bara svo þið vitið það þá tekur það engar 40 mínútur frá Borganesi að Vatnaskógi heldur um 25 – 30 mínútur. Á leiðinni var margt spjallað og spurði Ásbjörn Agnar hvort hann hefði örugglega ekki tekið Nýja Testamentið með. Því hafði ég alveg steingleymt (bölvaði í hljóði). Hvernig gat ég annars gleymt því, þetta eru jú kristilegar búðir en svona er ég eitthvað gleymin, t.d. gleymdust inníþróttaskórnir hans Agnars eftir heima fyrir þessa ferð. Þegar við komum að réttum stað sá ég svo ekkert nógu merkilegt skilti og keyrði því fram hjá afleggjaranum. Sá reyndar tvö lítil skilti og las ekkert á þau. Ekki nógu stór og áberandi, ekkert svona neon blikk eitthvað.  Brunaði að Ferstiklu, fór þangað inn og fékk mikilvægar upplýsingar. Ég hafði sem sagt keyrt fram hjá afleggjaranum sem litlu skiltin stóðu við. Jæja við keyrðum til baka og inn á réttan afleggjara. Keyrðum svo að Vatnaskógi og er þetta mjög fallegur staður. Strákarnir voru nokkuð stressaðir og með pínu hnút í maganum. Ég sagði Agnari að ég ætlaði að skutlast svo inn í Borganes og versla á hann í Hagkaup og koma svo aftur strax með góssið. En ég fór ekki fyrr en allir voru komnir og hóparnir sestir niður. Lét þó forstöðumanninn vita af þessu með skutlferðina. Keyrði svo inn í Borganes að versla, hitti þar æskuvinkonu mína en hún vinnur einmitt í skódeildinni. Svona getur þetta oft verið skondið hvar fólk hittist. En auðvitað dróst það að ég færi til baka, auðvitað spjölluðum við vinkonurnar yfir skórekkunum. Eftir að allt þetta verslunardæmi keyrði ég svo í loftinu með góssið í búðirnar. Auðvitað tveimur tímum of seint til að það flokkist sem skutl. Eftir allt þetta fórum við mæðgurnar aðeins  í dúllugírinn í Borganesi. Snúllan mín fékk langþráð göt í eyrun og við fengum okkur eitthvað að snæða. Þurfti reyndar að rúnta um til að finna rétta húsið en það gekk allt upp. Drifum okkur svo heim. Þegar heim var komið átti ég að mæta í vinnustaðakvöldmat klukkutíma síðar en bensínið á mótornum hjá mér var algjörlega búið svo ég skrópaði. Skellti mér frekar í náttbuxur og þægilegan bol og slakaði á. Komst svo að því daginn eftir að maturinn var guðdómlegur og því hafi ég misst af miklu. Jæja jæja það verður bara að hafa það þangað til næst.

Messa í Borgarvirki

Á mánudagskvöldið var var messa í Borgarvirki. Kórinn frá Hvammstanga söng og séra Sigurður predikaði.new_folder_009.jpg Ég skellti mér ásamt krökkunum mínum og tengdamömmu. Fórum með teppi og brunuðum tímalega af stað. Fengum frábært veður og sæmilegt bílastæði. Já bílastæðið skiptir nefnilega máli þarna hjá Borgarvirki því ef maður kemur seint verður að leggja bara einhvers staðar og jafnvel laanngtt í burtu. Þetta er í fyrsta skipti sem ég skelli mér í messu þarna. Einhvern veginn þarf alltaf eitthvað að vera að gera eða einhver að koma í heimsókn. Jæja hvað um það. Sungnir voru sálmar sem tilkynnt var að allir kynnu. Hmmm ég hef nú stundum oltið inn í kirkju svona við og við en aldrei heyrt þessa sálma sem sungnir voru þarna. Svo var fólk hvatt til að syngja hátt með. Ég gerði mitt besta og raulaði lágt þó bara rétt til að sýnast. En þetta var ánægjuleg stund á mögnuðum stað. Svolítið magnað og um leið skrítið að fara í messu á heiðnum stað en svona er Ísland í dag.

new_folder_015.jpg        new_folder_005_580441.jpgnew_folder_011.jpg


Smábæjarleikar

Núna um síðustu helgi voru smábæjarleikar haldnir á Blönduósi. Kormákur sendi slatta af fótboltaliðum. Reyndar keppa liðin frá Hólmavík og Hvammstanga saman undir merkjum Kormáks/Geisla. Ánægjulegt að sjá hve margir krakkar voru að keppa. Leikirnir fór svona og svona. Ekki voru allir leikmenn ánægðir með úrslit en við því er lítið að gera. Yngstu krökkunum gekk mjög vel en svo voru leikirnir hjá eldri krökkunum eitthvað öðru vísi. Birgitta Maggý fór fyrir Kormák og stóð hún sig bara vel. Hún hlýtur að hafa sofið út í dag. Þetta er í annað sinn sem ég fer með strákinn minn á mót. Fórum í fyrra á Króksmótið. Það var skemmtilegt mót. Því miður komumst við ekki á það í ár vegna ættarmóts sömu helgi. Ég er alltaf að sjá það betur hvað maður þarf að hafa með sér og er sá listi ekki tæmandi. Datt í hug að leifa ykkur að sjá aðeins örlítið brot.

1. tjald/tjaldvagn/fellihýsi eða hjólhýsi eða eitthvað álíka til gistingar á mótum. Getur verið þreytandi að þurfa að keyra á milli.

2. nokkur pör af fótboltaskóm, legghlífum og hönskum (ótrúlegt hve margir krakkar koma án einhvers af þessu og því gott að hafa til að lána).

3. Nesti og drykki

4. sólarvörn og plástra

5. teppi til að vefja utan um krakkana

6. vera velklætt foreldri sem stendur yfirleitt í roki á hliðarlínunni. Getur orðið kalt.

7. slatta af teppum og púðum til að setjast á í brekkunni á milli leikja.

8. taka með útilegustóla. Bráðnauðsynlegt fyrir þunga rassa og stirða fætur.

Þetta er allt fyrir utan dótið sem fylgir því að gista, svo sem svefnpokar/sængur, matur, aukaföt, eyðslufé, sundföt, handklæði og ótrúlega margt fleira.

En þrátt fyrir allt þetta er svo gaman að fara á þessi fótboltamót með krökkunum og vonandi verða fleiri mót farin.

 

 


Nýja vinnan

Er komin í nýja vinnu. Er að vinna á sjúkrahúsinu á Hvammstanga við aðhlynningu aldraðra. Hef aldrei unnið við það áður svo mér kveið nú pínu fyrir fyrstu vakt. En ég var svo heppin með leiðbeinanda og kennara. Hún heitir Elísabet og er yndisleg kona. Hún er svo greinilega í réttu starfinu held ég. Þannig er að ég er að læra sjúkraliðann og hef svo aldrei unnið við aðhlynningu. Fannst því kominn tími til að prófa djobbið. Og mér líka þetta bara nokkuð vel þrátt fyrir ýmis mannleg mistök sem þarf að þrífa og svona. Bróðir minn, hann Jóhannes, er búinn að vera eitthvað að stríða mér með þetta því mér finnst öll mannleg mistök frekar ógeðfelld. Nú held ég að hann sé með veðmál við sjálfan sig um hvenær litla systir gefist upp en nei ég kem honum á óvart með því að finnast bara gaman í nýju vinnunni. Svo er heldur ekki leiðinlegt hvað búningurinn fer mér ótrúlega vel og gæti ég alveg séð fyrir mér að svissa bara yfir í hjúkrunarnám. Hmmm nei annars er frekar hrædd við nálar og stungur. Svo ég held mig bara við mannlegu mistökin í stað nálastungu.

Áhugavert

Var að rekast á heimasíðu með strákum frá Hvammstanga. Daníel Geir og Siggi Hólm. Þeir ásamt þriðja gæja eru á ferð um Bandaríkin. Mjög flott framtak hjá þeim en þeir eru sem sagt að gera þætti um ferðina. Endilega kíkið inn á www.sveittir.is

 


17. JÚNÍ

Til hamingju allir með daginn í dag og þá líka þeir sem eiga afmæli í dag. Pétur Þröstur til hamingju með 39 ára afmælisdaginn. Í dag er dagur til að vera stoltur Íslendingur eða það er mín skoðun. Í mér blundar alltaf pínkuponsara þjóðrembingur þó víðsýn og frjálshugsandi manneskja sé. Nema hvað sá litli rembingur sefur yfirleitt alla daga enda yrði hann ekki vinsæll í minni stórfjölskyldu. Því í henni leynast ýmsir skemmtilegir og áhugaverðir kvistir frá fleirum löndum en Íslandi sem gera fjölskylduboðin afar spennandi. Jæja þessi fjölskyldusaga kemur rembingnum ekkert við. Í dag var ein af mínum bestustu vinkonum Fjallkona sýslunnar okkar. Anna Birna heitir hún og stóð hún sig með miklum sóma þessi elska. Svo voru henni til aðstoðar tvær ungar stúlkur sem táknuðu Ís og Eld. Dóttir mín hún Jenný Dögg táknaði Eld og Jónína heitir svo stúlkan sem var Ís. Allt gekk vel og litlu skvísurnar stóðu sig með sóma. Þjóðarrembingurinn stökk hæð sína í loft upp yfir deginum og fékk hann að leika lausum hala. Ég er að henda inn myndum af þessu inn á myndaalbúmið. Endilega kíkið á stjörnur dagsins í Húnaþingi vestra.


Heimakynningin

Bara verð að segja ykkur frá heimakynningunni sem ég var á hjá henni elsku Ölmu. Það kom sem sagt kona til hennar og hélt kynningu á vörum frá LinDesign. Þetta eru svo flottar vörur. Sængurverasett, lök, púðar, dúkar, handklæði og hvaða eina devle smart. Tek það fram að ég er ekki á samning hjá þeim að auglýsa. Ætlaði ekkert að versla og vera frekar sparsöm enda nýlega komin heim frá Kaupmannahöfn ("ánægjustuna"). Jæja jæja ég endaði svo með að versla fyrir um 10.000 kr. En heimasíðan er: http://www.lindesign.is ef einhver hefur áhuga á að skoða flottar vörur.

Árleg folaldamörkun

Já nú er búinn hinn árlegi mörkunardagur folalda. Vá hvað þetta er hátíðlegt allt saman. En veðrið var betra en spáð var. Engin rigning en hvasst.  Auðvitað er þetta hluti af stærri pakka. Því nú veit maður hvað til er af efnilegum skepnum á stórbúinu. Einnig kemur oft eitthvað fólk til aðstoðunnar mismikið þó eftir árum. Í ár stormuðu að Jörfa Eiríkur og Hrönn, Siggi nokkur ávallt nefndur við Gröf, Axel Guðni ekki kenndur við neitt og alls ekki neitt kenndur! Auðvitað kom svo Svenni frá Hrísum ásamt dóttur sinni til að marka. Athuga ber að Svenni er löngu fluttur frá Hrísum og sú jörð orðin að sumarbústaðarlandi. Einhvern veginn verða bæjarnöfnin föst við suma.  Jæja nóg um það. Hvað var gert. Fyrst var skeiðað á tveimur jafnfljótum upp í hlíð að smala. Reyndar sumir á bílum en aðrir fótgangandi. Öllum merum ásamt folöldum stefnt niður í rétt og gekk sá rekstur ljómandi vel þakka ykkur fyrir. Þegar það allt var afstaðið var farið að flokka og skoða og ég veit ekki hvað. Valur Freyr kom smá stund til að skoða sín hross og taka frá. Eftir það var meira flokkað og svo þær merar sem voru ekki með kríli reknar aftur upp í hlíð. Jæja svo var skellt sér í kaffi og ég dreif mig í að finna afganga frá jólasmákökum. Enginn fann þráabragðið því það voru allir svo svangir. Ansi gott að losna við gamlar smákökur á þennan hátt. Nú nú svo var farið í að marka og gekk það bærilega. Vorum við hjónin búin að ákveða að leyfa elsta syninum Picture 265að velja sér folald en drengurinn er svo óframfærinn að hann fann ekkert sem honum leist á. Varð hann drullufúll og hverjum var kennt um það að ekki fyndist folald til eignar???' Jú mér. Drengurinn taldi móður sína ekki eiga nógu flotta liti. Suss bara. En við sjáum til í haust. Er búin að setja myndir frá þessum atburðum í myndaalbúm. Já svo í kvöld er ég að fara á heimakynningu hjá henni elsku Ölmu minni og hlakka ég mikið til að gúffa í mig veitingum og þukla á sængurfötum og handklæðum og veggteppum og ég veit ekki hverju. Þangað til næst = tútílítú =


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Stellan

Höfundur

Stella Jórunn A Levy
Stella Jórunn A Levy
Stellan er forvitin og hefur áhuga á flestu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ..._005_580441
  • ..._folder_011
  • ..._folder_015
  • ..._folder_009
  • Jenný Dögg táknaði Eldinn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 1146

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband