Breyttir tímar

Ég er svo gömul að hafa upplifað öðru vísi tíma en unglingar í dag eru að upplifa. Þannig er að ég á börn og það kemur fyrir að þau vilja vita hvernig var þegar mamma þeirra var svipuðum aldri og þau eru núna. Þeim finnst ég hljóti að hafa verið uppi á fornöld. En er það svo? Ja ég man til dæmis eftir þegar ríkisjónvarpið var eina stöðin sem var í boði og það var ekkert sjónvarp í júlí. Hvað þá morgunsjónvarp eða hægt að horfa frameftir. Alltaf hugvekja á sunnudögum og ekkert sjónvarp fyrr enn klukkan 18. Já svo var ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Man enn hvaða þáttur var svo alltaf sýndur á fyrstu fimmtudagskvöldunum, Mattlock lögmaður í bláu jakkafötunum. Snjall kall sá. Fleira var öðruvísi í minni æsku. Bara ein útvarpsrás lengi vel og voru þættir eins og Lög unga fólksins, Óskalög sjómanna og Óskalög sjúklinga voða vinsælir þættir. Ekkert næturútvarp. Hvílík bylting þegar svo Rás 2 byrjaði. Ég bjó í sveit og þar var sveitasíminn og enginn GSM sími til. Hvað þá video eða tölva. Bara eitt sjónvarp og tvö til þrjú útvarpstæki. Sveitasíminn var magnaður. Allar kellingar hleruðu og héldu ekki vatni yfir slúðri dagsins. Ég man að þetta var aðaláhugamál kvenna enda Leiðarljós ekki komið á dagskrá enda ekkert sjónvarp á daginn í boði. Nema hvað þegar ég var u.þ.b. 10 ára ákvað ég að prófa þetta súperskemmtilega áhugamál. Var ein hjá símanum og notaði tækifærið. Tók tólið ofurvarlega upp og hlustaði. Heyrði að það voru tveir karlmenn að tala og um svona líka eitthvað leiðinlegt, pólitík og fundagerðir. Úfff hvað það var leiðinlegt. Hlustaði nú samt og hélt í von um slúður en ekkert gerðist. Þekkti þó reyndar annan manninn sem talaði og var það pabbi minn sem var einhver staðar á fundi. Ég beið róleg eftir að samtali mannanna lyki og þegar það gerðist þá greip ég tækifærið og spurði pabba hvenær hann kæmi heim. Bara rétt sí svona eins og hann vissi bara að ég væri hinum megin á línunni.  Honum brá aðeins en snéri sig fagmannlega útúr þessu og sagðist koma bráðum heim. Eftir þetta lét ég sveitasímann alveg vera.  Fleira var öðruvísi þá en nú. Til dæmis var aðalbíllinn Land Rover. Ekki töff í dag held ég. Svo af því að það var ekkert internet, video eða hópur sjónvarpsrása þá voru spilakvöld og bingó vinsæl kvöldskemmtun. Já já man eftir röð spilakvölda og svo var hörð keppni. Ekki væri mikil þátttaka ef svoleiðis væri í dag. Ekki svo að skilja að ég vilji gamla tímann aftur því ég er fullkomlega sátt við að vera uppi í dag. En þó er gaman að horfa um öxl og sjá hvernig þjóðfélagið hefur breyst.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Stellan

Höfundur

Stella Jórunn A Levy
Stella Jórunn A Levy
Stellan er forvitin og hefur áhuga á flestu.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._005_580441
  • ..._folder_011
  • ..._folder_015
  • ..._folder_009
  • Jenný Dögg táknaði Eldinn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband